Skipulagspælingar um áramót

Áramót eru frábær tími til að endurskoða og endurmeta markmið, venjur og daglega rútínu. Fyrir þau sem hafa gaman af skipulagi, hvort sem það snýst um daglegt skipulag, heilsufarsskráningu eða fjármál, eru áramótin kjörið tækifæri til að koma hlutum í betri farveg ef þarf og hefja nýtt ár með skýrum huga og markvissum áherslum. Hér eru nokkur skref sem sem mér finnst gott að nýta til að byrja nýja árið af skipulagi:

Endurmeta liðið ár

Setjast niður og farðu yfir helsta árangur og lærdóm frá liðnu ári. Hverjir voru hápunktarnir? Hvað gekk ekki eins og ætlað var? Hverjar voru þær venjur eða aðferðir sem virkuðu best fyrir mig? Ég skrái þessar upplýsingar niður í dagbók eða skipulagsbók til að byggja á árangrinum og forðast að endurtaka mistök.

Setja ný markmið

Ég er ekki áramótaheitatýpan en markmið sem ég endurskoða reglulega hafa nýst mér vel. Markmiðasetning er lykilatriði til að ná árangri í mínum huga. Vertu raunhæf/ur í væntingum þínum og skiptu stærri markmiðum upp í smærri, nánar skilgreind skref. Áhersla á skammtímamarkmið hefur hjálpað mér að gera langtímamarkmiðin viðráðanlegri. Það hjálpar líka gríðarlega að hafa markmiðin vel upp sett og sýnileg. Markmiðablöðin mín eru einmitt hönnuð með það í huga svona ef þig vantar form fyrir þín markmið ;)

Skipuleggja fjármálin

Nýtt ár er frábær tími til að endurskoða fjármálin. Ég fer yfir liðið ár og set saman fjárhagsáætlun fyrir það næsta. Ég skoða hvaða markmiðum ég hef náð og hvar ég er stödd varðandi önnur, skoða tekjur og gjöld, athuga hvort ég geti sparað meira og set mér markmið fyrir sparnað, niðurgreiðslu skulda og annað fjárhagslegt.

Ný dagbók! (Eða nýtt innihald í gömlu góðu)

Ef þú notar dagbók til að halda utan um daglegt skipulag, heilsufar eða fjármál, þá er gott að byrja nýtt ár á auðum blöðum og ferskum hugmyndum. Það er eitthvað alveg magnað við að taka upp alveg auða bók eða tæma gömlu bókina og fylla af tómum blöðum. Ég mæli með að velja bók sem hentar þínum þörfum, hvort sem er einföld og praktísk bók, skreytt og áhugaverð eða bók með fullt af auðu plássi fyrir teikningar, tjáningu eða dútl. Þín bók er þín og þarf að henta þínum þörfum.

Líkamleg og andleg endurstillning

Nýtt ár er tækifæri til að skoða heilsuna. Ég reyni að byrja nýjar venjur sem styðja bæði andlega og líkamlega vellíðan svo sem andleg iðkun, gönguferðir eða betri svefnrútínur, án þess að ætla að gera einhverja byltingu sem ég get svo ekki staðið með inn í nýja árið. Raunhæfar litlar breytingar sem hægt er að viðhalda er gullið hér.

Nýttu endilega tækifærið sem áramótin veita til að endurmeta, endurstilla og undirbúa betur skipulag ársin framundan. Með skýrum markmiðum og markvissu skipulagi geturðu gert 2025 að árinu þínu! Ég veit að ég ætla að gera það :D

Previous
Previous

Skipulagið mitt

Next
Next

Fjármáladagbók: Einfalt skref að betri fjármálum