Fjármáladagbók: Einfalt skref að betri fjármálum
Í samfélagi sem er stöðugt að breytast, þurfum við stöðugt að laga okkur að nýjum aðstæðum. Það sem hentaði vel í fjármálum fyrir nokkrum árum er ekki endilega besta lausnin í dag. Við lifum á tímum þar sem breytingar á vöxtum, verðlagi og lífsháttum hafa bein áhrif á fjárhaginn okkar. Það er því lykilatriði að hafa gott yfirlit yfir fjármálin og vera sveigjanleg þegar kemur að sparnaði, útgjöldum og markmiðum.
Ein besta leiðin að þessu er að halda fjármáladagbók eða að skrá heimilisbókhald (sem getur verið einn og sami hluturinn). Þetta er einfalt og kraftmikið verkfæri sem getur hjálpað þér að fá betri yfirsýn, skapa heilbrigðari venjur og bæta fjárhagslega heilsu.
Þegar þú skráir allar tekjur og útgjöld, sérðu hvert peningarnir fara og hvaða venjur þú þarft mögulega að laga. Þú losnar við óvissu og óþarfa áhyggjur því þú veist nákvæmlega hvar þú stendur fjárhagslega.
Með skýra mynd af fjármálunum geturðu forgangsraðað útgjöldum, slept óþarfa kostnaði og einbeitt þér að því sem skiptir raunverulega máli.
Þegar þú ert með yfirlit yfir útgjöld, verður auðveldara að sjá hvar hægt er að spara og setja meira í sparnað. Þetta tengist líka hugmyndinni um að borga þér fyrst, sem felst í því að leggja alltaf til hliðar sparnað áður en þú greiðir reikninga eða eyðir í önnur atriði. Nánar um það síðar..
Fjármáladagbókin hjálpar þér að aðlagast breytingum, hvort sem það eru verðhækkanir, tekjubreytingar eða ný markmið. Með skýrri skráningu geturðu endurmetið forgangsröðunina reglulega.
Hvað þarf að hafa í huga þegar þú byrjar?
Það skiptir ekki máli hvort þú notar fjárhagsdagbók á blaði, í tölvu eða app í símanum. Veldu það sem þér finnst þægilegast og skemmtilegast. Aðalatriðið er að það sem þú velur henti þér og að byrja!
Skráðu reglulega - Skapaðu vana við að skrá fjármálin þín reglulega, til dæmis einu sinni í viku. Skráðu allar tekjur, föst útgjöld eins og leigu og reikninga, og breytileg útgjöld eins og mat, bensín og skemmtanir. Eftir því sem þú gerir þetta oftar tekur það styttri tíma.
Settu þér markmið - Ákveddu hverju þú vilt ná fram með fjármáladagbókinni. Viltu spara fyrir neyðarsjóði? Skera niður óþarfa kostnað? Eða einfaldlega ná betri stjórn á peningunum? Athugaðu einnig að fjárhagsleg markmið þurfa ekki að felast í krónum og aurum. Að skrá reglulega í fjármáladagbók í heilan mánuð er til dæmis afbragðs fyrsta fjármálamarkmið.
Notaðu flokkunarkerfi - Skiptu útgjöldum í flokka, svo sem húsnæði, samgöngur, mat, skemmtun og sparnað eða annað sem þér hentar. Þannig verður auðveldara að sjá hvar þú getur gert breytingar. Mér finnst persónulega gott að merkja hvern flokk með ákveðnum lit til að ég sjái um leið og ég hef merkt það hvaða liðir í bókhaldinu tilheyra hvaða flokk. Passaðu uppá að gera ráð fyrir að einhver peningur fari í eitthvað skemmtilegt sé þess nokkur kostur. Það er rosalega erfitt að halda áætlun sem gerir bara ráð fyrir að maður hafi efni á að sofa, vinna og borða.
Gerðu fjármáladagbókina að jákvæðri upplifun - Fjármáladagbók er ekki bara verkfæri – það er leið til að ná og fagna árangri. Þegar þú nærð markmiði, eins og að minnka útgjöld eða spara ákveðna upphæð, leyfðu þér að gleðjast yfir því. Svo er líka hægt að auka ánægjuna af því að nota fjármáladagbókina og skrá heimilisbókhaldið með því að gera tímann sem er frátekinn til þess sérstakann. Það er hægt t.d. Með því að tryggja næði og ró, setja á góða tónlist eða hella upp á uppáhalds kaffið í hvert sinn sem þú sest niður til að skoða fjármálin. Sum hafa meira að segja gengið svo langt að halda eins manns fjármálapartý með vínglasi og veitingum (ath að neysla víns við skipulag fjármála er ekki ráðlögð ;) )
Borgaðu þér fyrst – lykillinn að langtímasparnaði
Ein grundvallarregla í fjármálastjórnun er að borga sér fyrst. Þetta þýðir að þegar þú færð launin þín, leggurðu fyrst til hliðar ákveðna upphæð í sparnaðarsjóð áður en þú greiðir reikninga eða eyðir í annað. Með því að setja sjálfan þig í fyrsta sæti, tryggirðu að þú sért alltaf að leggja til hliðar fyrir framtíðina, sama hvað annað gerist. Þetta er lykillinn að því að byggja upp fjármálaöryggi og ná langtímamarkmiðum. Þetta þarf ekki að vera há upphæð til að byrja með, byrjaðu bara á að leggja þúsund krónur inn á sparnaðarreiknin áður en þú gerir nokkuð annað við peninginn þinn um næstu mánaðamót og fylgstu með því hvernig þér líður með það. Gerðu svo eins um næstu mánaðamót og koll af kolli. Eftir því sem rými myndast geturðu vonandi hækkað þessa upphæð smátt og smátt en reyndu a.m.k. að taka hana alltaf til hliðar fyrst og ekki ganga á sjóðinn þinn nema í algerri neyð eða þegar þú hefur safnað upp í það sem hann var ætlaður fyrir.
Að halda fjármáladagbók eða skrá heimilisbókhald er einföld en öflug leið til að ná betri stjórn á peningunum þínum. Það tekur aðeins smá tíma að venjast því, en þegar það verður hluti af daglegu lífi þínu muntu sjá mun á fjárhagslegri vellíðan og öryggi. Með því að fylgjast með fjármálunum reglulega, setja þér markmið og borga þér fyrst, munt þú verða fjárhagslega meðvitaðri og betur undirbúin/n fyrir framtíðina.
Byrjaðu í dag – framtíðarútgáfan af þér mun þakka þér fyrir það!