Leiðbeiningar og heilræði við val og notkun á dagbók eða skipulagsbók

Þrátt fyrir að allir séu komnir með dagatalið í vasann og öpp fyrir allt mögulegt þá lifir dagbókin góðu lífi og til er heill frumskógur af dagbókum og skipulagsbókum hver með sín einkenni og tilbrigði. Það getur því reynst yfirþyrmandi að velja sér bók sem hentar og halda sig við skrifin. Hér á eftir fara því nokkur heilræði um hvernig hægt er að rata um þennan frumskóg sem dagbókarval er og hvernig þú getur komið þér af stað í dagbókar eða skipulagsbókar skrifum og haldið þig við þau.

Að velja rétta bók

Til hvers ætlarðu að nota hana? Hugsaðu um í hvað þú ætlar að nota dagbókina. Er hún til að skipuleggja daginn, til að skrifa niður tilfinningar þínar, eða til að skrá markmið þín, hjálpa þér að muna eða auka afköstin? Mismunandi dagbækur henta mismunandi þörfum og það er til dagbók fyrir þínar þarfir, trúðu mér (og ef ekki þá máttu láta mig vita og kannski bý ég hana til)

Stærð og eiginleikar: Veldu dagbók sem er þægileg að hafa með sér ef hún verður með þér á ferðinni á hverjum degi. Ef hún verður alltaf á sama stað, þá getur stærðin verið aðeins meiri og þá er fínt að reyna að hugsa út í hversu mikið pláss þú vilt hafa, hvort þú vilt skreyta hana með límmiðum eða dútli og hversu stór skriftin þín er.

Útlit og stíll: Finndu dagbók sem þér finnst falleg og hvetjandi. Falleg kápa getur gert upplifunina ánægjulegri, persónulegri og aukið líkurnar á því að þú hafir bókina með þér og opnir hana til að skrifa í hana. Hvernig hún er bundin saman getur líka skipt máli. Viltu að hún liggi alveg opin og flöt (þá henta gataðar, gorma- eða diskabundnar bækur) eða viltu ekki hafa neitt sem gæti flækst í einhverju þegar þú ert með bókina á ferðinni (þá gætu límdar eða heftar bækur eða utanyfirkápur hentað)?

Pappírsgæði: Ef þér líkar við að skrifa með blekpennum eða tússpennum, skaltu vera viss um að pappírinn sé nógu þykkur til að blekið smitist ekki í gegnum blaðið. Það eru meira að segja til bækur með extra þykkum pappír sem fólk sem einskonar listdagbók og málar, vatnslitar og teiknar í.

Innihald og blöð: Það getur tekið nokkrar tilraunir að komast að því hvernig þú vilt hafa blaðsíður dagbókarinnar þinnar upp settar. Það fer t.d. eftir því hvað þú ætlar að hafa í bókinni; hvort hún á bara að halda utan um skipulag dagsins og vera hnitmiðuð eða vilt þú hafa pláss til að breyta til og búa til þitt eigið? Skoðaðu hvað er í boði því það er heill frumskógur af allskonar og prófaðu svo það sem þér finnst mest heillandi en kannski án þess að binda þig við það í heilt ár.

Að æfa sig í að nota dagbók

Hafðu fastan tíma fyrir skrifin: Ef þú skrifar alltaf í bókina á sama tíma verður það að venju og kemst inn í rútínuna þína sem gerir það að verkum að það er líklegra að þú haldir því áfram.

Einfalt er góð byrjun: Ef þú ert að byrja í dagbókarskrifum, byrjaðu þá á einhverju einföldu. Skrifaðu niður hugleiðingar dagsins, hvað þú ert þakklátur fyrir, eða markmið morgundagsins. Það getur verið gott að hafa dagbókaruppsetningu sem leiðir þig áfram í þessu.

Markmið: Settu þér markmið um hverju þú vilt ná fram með dagbókarskrifunum. Það gæti t.d. verið að bæta skipulag, vinna úr tilfinningum eða fylgjast með framförum þínum.

Skrifaðu reglulega: Reyndu að skrifa daglega, jafnvel þótt það sé aðeins í nokkrar mínútur. Það skiptir máli til að þróa þessa venju. Það má samt ekki gefast upp eða halda að maður sé að byrja upp á nýtt þó man missi nokkra daga úr. Taktu bókina upp aftur og haltu áfram.

Vertu skapandi: Notaðu dagbókina til að teikna, líma inn myndir eða búa til listaverk ef þér sýnist svo. Þú þarft ekki að fylgja neinum reglum; þetta er þitt persónulega rými. Mundu líka að bókin þarf ekki að vera falleg eða til sýnist frekar en þú vilt. Það má krassa yfir, leiðrétta og krota. Það má líka rífa úr blaðsíðu og byrja á henni upp á nýtt ef þér líður betur með hana þannig.

Æfðu þolinmæðina: Það tekur tíma að búa þér til nýja venju. Sýndu sjálfri þér þolinmæði og leyfðu þessari æfingu að vaxa og þroskast með tímanum.

Að halda dagbók eða skipulagsbók getur verið persónulegt og skapandi ferli og haft mikil áhrif á andlega líðan og sjálfsþekkingu. Njóttu ferlisins. Með tímanum munt þú finna að þessi venja verður ómissandi hluti af þínu daglega lífi.

Previous
Previous

Fjármáladagbók: Einfalt skref að betri fjármálum

Next
Next

Að ná markmiðum sínum