Að ná markmiðum sínum
Áætlun
Öll góð verkefni hafa áætlun um hvernig á að framkvæma þau þar sem tekið er tillit til þátta eins og tíma, aðstöðu, fjármagns, hæfni og fleira. Markmið eru engin undantekning þó vissulega geti markmiðsáætlanir verið mis yfirgripsmiklar. Hér verður farið yfir ýmislegt sem gott er að hafa í huga þegar maður setur niður áætlun fyrir markmiðin sín.
Að skrifa markmiðið niður
Með því að skrifa markmiðin okkar niður erum ekki aðeins að gera okkur auðveldara að muna það (við erum mun líklegri til að muna það sem við skrifum niður en það sem við eingöngu heyrum eða hugsum) heldur verður til ábyrgðartilfinning gagnvart því að ná markmiðinu (e. accountability); Það er orðið að raunverulegum hlut sem er skrifaður niður og við erum meðvituð um að þetta er það sem við virkilega viljum stefna að.
Við höfum þá líka eitthvað í höndunum til að skoða og koma aftur að reglulega. Það er ekki verra ef markmiðið er skrifað niður á þann hátt að því fylgi plan um hvernig á að ná því, hefur pláss til að haka við það sem er búið og jafnvel einhverskonar árangurs-stiku sem hægt er að fylla inní eftir því sem við færumst nær markmiðinu okkar svo við sjáum það sem hefur áunnist. Svo er það alls ekki þannig að markmiðið sé bundið við hið skriflega. Það má endilega vera skrautlegt, litríkt, myndskreytt eða jafnvel svokallað vision board þar sem myndir sem passa við markmiðið eða drauminn sem við sjáum fyrir okkur þegar markmiðinu hefur verið náð eru settar saman á spjald (rafrænt eða á blað) til að búa til framtíðarsýn fyrir markmiðið.
Hægt er að skrifa markmið niður í dagbók, á autt blað og hengja á ísskápinn eða skrá í sérstakt form. Mörg slík form er hægt að finna á netinu með því að googla t.d. printable goal setting worksheet. Svo er markmiðabókin Markmiðin mín sérstaklega hönnuð fyrir akkúrat þetta (sjá hér: https://www.ognicelandic.com/markmidabok) og fleiri lausnir á íslensku verður að finna í vefverslun Agnar innan skamms.
Leiðir að markmiðinu
Það eru lang oftast margar leiðir sem liggja á áfangastað en ólíkt ferðalögum þá getum við farið nokkrar í einu og þannig byggt undir líkurnar á árangri. Þessar leiðir eru þó ekki alltaf augljósar og gott getur verið að setjast niður og skrifa allt sem manni dettur í hug sem gæti orðið til þess að hjálpa manni að ná markmiðinu. Ef við erum t.d. að undirbúa okkur fyrir markmiðið að mæta á allar æfingarnar okkar í mánuðinum þá gæti einhverjum virst að eina færa leiðin væri að mæta. Ef við skoðum það hins vegar betur þá getur það hjálpað okkur að mæta ef við erum búin að taka til búnaðinn sem við þurfum og stilla honum upp við útidyrnar daginn áður, eða ef við erum búin að tala við æfingafélagann og segja honum að við mætum eða skrá okkur á æfinguna ef þess þarf, þá er erfiðara að bakka út á síðustu stundu. Fyrir suma getur hjálpað að setja áminningu í dagatalið í símanum eða taka alltaf frá tíma til að gera eitthvað skemmtilegt eftir að æfing hefur verið kláruð líkt og að fara í heita pottinn eða ganga heim með uppáhalds tónlistina í heyrnartólunum, splæsa í boozt eða setjast niður með kaffi og æfingafélaganum. Hvaða leið sem gæti virkað fyrir þig til að hjálpa þér að ná markmiðinu ætti að fara á blað og vera prófuð a.m.k. einu sinni.
Ef markmiðið er stærra eða flóknara þá getur verið gott að taka til alla þættina sem þarf að klára til að ná stóra markmiðinu og fara svo yfir hvernig er hægt að tækla hvern og einn. Það sem hægt er að klára fljótt af ætti að klára sem fyrst, þá er hægt að haka við að það sé búið og fyrir flesta virkar vel að komast svolítið hratt af stað. Þeir þættir sem eru minni en þarf að gera aftur og aftur þarf að koma upp í vana. Ýmsar leiðir eru til þess og það gæti t.d. verið eitt af undir-markmiðum stærra markmiðs þ.e. að búa sér til þann vana. Stærri verkefni sem taka mikinn tíma eða átak er hægt að skipta niður í minni hluta eða sérstök markmið. Hér gildir að huga að öllu því sem hægt er að gera til að auka líkurnar á því að ná markmiðinu og skilja ekkert útundan. Það er líka gott að setja sér tímamörk fyrir hvern og einn lið til að halda sér við efnið og missa ekki þráðinn.
Hindranir
Eins og við viljum nú vera bjartsýn og jákvæð þá er það okkur í hag að undirbúa okkur fyrir að það gangi ekki alltaf allt að óskum og að einhverjar hindranir verði á vegi okkar að markmiðinu. Með því að gera okkur grein fyrir hindrununum getum við bæði passað uppá að markmiðið sé raunhæft en einnig búið okkur undir að takast á við hindranirnar. T.d. ef við vitum að tímaskortur á það til að hindra okkur í að gera e-ð sem er nauðsynlegur hluti af markmiði þá getum við markvisst unnið að skipulagningu og hagræðingu tímans okkar til að búa til eða nýta þann tíma sem við höfum sem best. Þetta gæti t.d. verið að semja um að vinna einhverja daga heima til að minni tími fari í samgöngur, undirbúa að kvöldi það sem við þurfum á að halda daginn eftir, halda sameiginlegt dagatal með maka eða fjölskyldu svo það komi skýrt fram hvenær við þurfum tíma til að vinna að markmiðum okkar. Þetta getur líka falist í að æfa æðruleysi þegar kemur að hlutum sem við getum ekki breytt s.s. veikindum eða ákvörðunum annarra eða fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir hindranir s.s. að kynna sér hindranirnar fyrirfram og gera ráðstafanir.
Vörður
Stórum markmiðum fer best að skipta niður í viðráðanlegri hluta eða svokallaðar vörður. Ef við erum að vinna að markmiði sem felst í því að endurtaka sama eða svipaðan hlut aftur og aftur geta vörðurnar verið tölulegar t.d. ein varða fyrir hvert ár sem lokið er af háskólagráðu eða fyrir hverjar 50.000 kr. sem lagðar eru inn á sparnaðarreikning. Ef lokamarkmiðið krefst þess hins vegar að við klárum mismunandi verkefni getur hvert þeirra verið varða s.s. Ein varða hefur náðst þegar maður hefur kynnt sér allt sem þarf til að ljúka markmiðinu, önnur varða þegar búið er að fjármagna verkefnið, þriðja varðan þegar búið er að ákveða dagsetningar, senda pantanir eða boðskort, allt eftir því hvert markmiðið er. Það að halda utan um vörður á leið okkar að markmiðum gefur okkur litla sigra í hvert sinn sem vörðu er náð og þeir virka hvetjandi á okkur til að halda áfram í rétta átt.
Stillum upp fyrir árangur
Það sem skiptir höfuðmáli þegar við ætlum okkur að ná markmiði er að gera það sem við getum til að útkoman sem verði sem næst því sem okkur dreymir um. Við stillum upp fyrir sem bestu útkomu í upphafi og stillum okkur svo af annað slagið með því að kíkja á markmiðið okkar og áætlunina og aðlaga, breyta og bæta. Annað sem er gott að hafa í huga fyrir árangursríka leið að markmiði:
Stöðugleiki umfram fullkomnun - haltu þig við efnið þó það takist ekki alltaf 100%, í lang flestum tilfellum skiptir meira máli að framkvæma það sem þarf að framkvæma frekar en að framkvæma það fullkomlega en bara endrum og eins eða eftir hentugleika.
Stuðningur - Ef við finnum stuðning þá hvetur það okkur áfram. Það skiptir ekki máli hvort það er fjölskyldan, fyrirmyndir eða jafningjar, svo lengi sem þau styðja okkur í að ná markmiðum okkar þá viljum við hafa þau í teyminu okkar. Deildu markmiðum þínum, leitaðu ráða og leyfðu þeim að fagna með þér þegar markmiðinu hefur verið náð.
Að halda í hvatninguna - Það er ekki hægt að ætlast til að okkur langi alltaf að gera það sem þarf að gera til að komast nær markmiðinu. Lífið er ekki endalausir regnbogar, glimmer og einhyrningar. Við getum samt geri ýmislegt til að halda í hvatninguna og gleðina: Finna frásagnir af árangri annarra sem voru eða eru á sömu leið, lesa eða hlusta á frásagnir fyrirmynda, sjá fyrir sér markmiðið, hvernig þér mun líða þegar þú nærð því og minna þig á af hverju þú settir þér þetta markmið og hvað það er sem þú vilt fá út úr því.
Að fagna árangrinum
Þegar við náum markmiðum okkar er það svo sannarlega fagnaðarefni og þá skiptir engu máli hversu stór eða lítil þau eru. Finndu eitthvað til að fagna árangrinum, segðu stuðningsnetinu þínu frá og vertu stolt/ur. Hvort sem það er að taka kvöld til að njóta með þínum nánustu, splæsa í draumaflíkina sem þú ert búin að vera með í körfu frá því þú byrjaðir að vinna að markmiðinu, fá þér uppáhalds matinn þinn eða eitthvað allt annað, láttu vaða! Það eina sem þarf að hafa í huga er að verðlaunin vinni ekki á móti markmiðinu þínu.
Að lokum er gott að minna sig á að leiðin til árangurs er ekki alltaf dans á rósum eftir marflötu malbiki en brekkurnar, beygjurnar og klöngrið er það sem færir okkur, herðir og styrkir okkur og gerir ferðalagið að minnisverðri upplifun.
Með skýra sýn á gildin okkar og markmið og vel mótað plan til árangurs er hægt að sigrast á hindrunum, hlaupa fram úr væntingum og krækja í draumana okkar. Svo ekki hika við að setja stóru draumana þína niður á blað og móta þá í metnaðarfull markmið og áskoranir. Þannig lifum við lífinu en ekki bara hvern daginn á fætur öðrum.
Gangi þér sem allra best í að rúlla upp framtíðarmarkmiðum þínum - Ég hef fulla trú á þér!