Hvernig setjum við okkur markmið?

Markmið eru eins misjöfn og fjöldi maura á jörðinni. Fyrsta skrefið í því að setja þér markmið er að komast að því hvað það er í raun og veru sem þú vilt afreka með því að ná markmiðinu. Hvað er það sem mig virkilega langar til að gera, breyta, bæta eða ná? Hver eru mín gildi?
Við erum mun líklegri til að ná markmiðunum okkar ef útkoman skiptir okkur máli. Því getur verið gott að skoða vel og svara hreinskilið hvort þú ert að gera þetta fyrir þig eða hvort það getur verið að þú sért að gera þetta vegna utanaðkomandi þrýstings eða tilbúinna hugmynda um hvað “allir ættu að gera eða geta” Við erum ekki sniðin eftir sömu uppskrift og því er eðlilegt að við séum með mismunandi markmið. Stórkostleg markmið Stefaníu frænku eru kannski bara ekki vitund áhugaverð fyrir þér. Horfðu því aðeins innávið og gefðu þér færi til að svara því hvort markmiðið sem þú ætlar að setja þér er mikilvægt fyrir þig og fylgi þínum gildum.

Mismunandi markmið

Það er hægt að skipta markmiðum upp í allskonar mismunandi flokka eftir því hvernig maður horfir á þau. Við getum t.d. flokkað þau eftir viðfangsefni s.s. námsmarkmið, fjárhagsleg markmið, heilsufarsleg markmið, lífstílsmarkmið o.s.fr.
Þá er hægt að skipta markmiðum upp eftir því hver leiðin að þeim er. Þar eru helst þrír flokkar sem við skiptum þeim niður í:
Ferlimarkmið (e. Process goals): Markmið sem felast í því að fylgja eða klára eitthvað ferli. Dæmi: að klára allar æfingar í æfingaprógrammi - læra í x marga tíma á viku - stunda útivist fimm sinnum í mánuði. Það er nánast algjörlega í okkar valdi hvort við náum markmiðinu eða ekki. Þ.e. aðrir hafa lítil sem engin áhrif á niðustöðuna eða við getum takmarkað áhrif annarra. Ferlimarkmið eru einnig óháð útkomu eða niðurstöðu þó þau yfirleitt ýti undir einhverja útkomu sem við erum að sækjast eftir, af því að við vitum að ef við höldum okkur við ferlið þá er útkoman líklegri til að vera góð. Til dæmis ef við lærum í ákveðið marga tíma á viku þá erum við líklegri til að ná prófunum en ef við gerum það ekki. Þannig er áherslan á ferlið sem styður við lokaútkomuna sem við sækjumst eftir en ekki verið að einblína á lokapunktinn. Þannig jöfnum við líka út vinnuna við að ná markmiðinu og erum ekki í jafn mikilli hættu á að verða á eftir áætlun og þurfa að leggja allt í sölurnar á lokasprettinum, sem er ekki endilega vænlegt til árangurs. Ferlimarkmið henta sérstaklega vel sem skammtímamarkmið s.s. til nokkurra mánaða eða þegar markmiðið er að koma sér upp einhverjum vana eða lífstílsbreytingu, þar sem verið er að vinna með minni verk reglulega og jafnvel á hverjum degi.

Frammistöðumarkmið (e. Performance goals): Markmið sem felast í því að ná einhverri ákveðinni eigin frammistöðu. Dæmi: ég ætla að hlaupa 10 kílómetra á 50 mínútum - ná 9 í meðaleinkunn - ganga á Hvannadalsnhjúk. Hér erum við að hugsa um að ná einhverju lokatakmarki sem skiptir okkur máli en ferlið að því er ekki eins niðurnjörvað eins og í ferlimarkmiði. Ég gæti sett mér markmið um að ganga á Hvannadalshnjúk í janúar og svo gert lítið sem ekkert í því fyrr en í apríl og kannski næ ég því samt.. en kannski ekki. Ég hef þó ansi mikið um það að segja hvort markmiðið náist eða ekki og þá helst óhjákvæmilegar ytri aðstæður sem setja strik í reikninginn eins og t.d. veikindi eða brjálað veður í dæminu um Hvannadalshnjúk. Þá er það undir mér komið að gera ráð fyrir því að svoleiðis komi upp og hafa plan B og jafnvel C klárt til að grípa í.

Niðurstöðu-/útkomumarkmið (e. Outcome goals): Markmið sem felast í því að verða betri en einhver annar (eða allir aðrir) í ákveðnu verki á ákveðnum tíma. Dæmi: ég ætla að vinna 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu - ég ætla að dúxa - ég ætla að vera fyrsti Íslendingurinn til gera “xyz”. Það getur verið erfitt að ná útkomumarkmiði því það byggist ekki eingöngu á því sem maður sjálfur gerir heldur einnig því sem aðrir gera. Þó ég nái hæstu meðaleinkunn sem nokkur hefur náð í mínu námi undanfarin 10 ár, getur verið að það sé ekki nóg til að dúxa ef einhver annar út hópi samnemenda minna hefur náð aðeins betri einkunn. Það er eitthvað sem við ráðum ekkert við (án þess að fara út í að skemma fyrir öðrum, sem ætti að sjálfsögðu aldrei að vera inni í myndinni og er ekki okkar framgöngu í hag). Niðurstöðumarkmið geta þó verið eitthvað sem gott er að styðjast við ásamt öðrum markmiðum og ágætis regla er að vera að vinna með mismunandi markmið á sama tíma t.d. að setja sér ferlimarkmið sem styður við útkomumarkmið.
Dæmi: Ég ætla að vera á verðlaunapalli í íslandsmóti ársins, til að ná því þarf ég amk að klára á tímanum xx:xx og til þess þarf ég að klára allar æfingarnar sem þjálfarinn minn leggur fyrir næstu þrjá mánuði og æfa mig í þrautseigju. Markmiðin verða því:
A) útkomumarkmiðið „Að standa á verðlaunapalli á Íslandsmótinu“
B) frammistöðumarkmiðið „Að klára mótið á tímanum xx:xx“
C) ferlimarkmiðin „Að klára allar æfingarnar sem þjálfarinn leggur fyrir næstu þrjá mánuði“ og „Að gera núvitunaræfingar 5 kvöld í viku“

SMART

Smart aðferðin við að setja sér markmið miðar að því að forma markmiðin þannig að þau séu gerleg og það sé alveg á hreinu hvað það er sem stefnt er að. Það er gert með því að skoða markmiðin út frá fimm sjónarhornum SMART. Þessi fimm sjónarhorn eru aðeins mismunandi eftir fræðum og þýðingum en hér munum við notast við að þau séu; skýr, mælanleg, alvöru, raunhæf og tímasett. 

S - Skýr
M - Mælanleg
A - Alvöru
R - Raunhæf
T - Tímasett

Skýrt markmið segir nákvæmlega hvað það er sem á að gera og eyðir út eins mikilli óvissu um það og hægt er. Ef við tökum sem dæmi þá er markmiðið að Verða rík/t/ur ekki skýrt markmið. Hvað felst í því að vera rík/t/ur fyrir þér? - Skýrari nálgun á þess háttar markmið gæti verið; leggja 500.000 kr. inn á sparnaðarreikning á hverju ári eða eiga 3 milljónir í neyðarsjóð eða eiga skuldlaust húsnæði eða að komast upp í að afla 2 milljóna í tekjur á mánuði.

Mælanlegt markmið gerir okkur kleift að vita nákvæmlega hvað þarf að ganga langt til að ná markmiðinu. Ætlarðu að hjóla 200 km eða 150? Ætlarðu að gera eitthvað í hverjum mánuði eða hverri viku, hvað eru margar æfingar í æfingaprógramminu sem þú ætlar að klára? Að verða betri í að halda bolta á lofti segir okkur að við ætlum jú að verða betri en hvernig mælum við það? Hvað get ég haldið bolta oft eða lengi á lofti í dag og hvað þarf ég að geta gert það oft eða lengi til að ég sé sátt/ur við að ég sé orðin betri?

Alvöru markmið er eitthvað sem skiptir okkur í raun og veru máli, eitthvað sem mig langar til að gera/geta og hef metnað fyrir. Ég get sett mér markmið um að hlaupa 5 km á dag en ef ég (persónulega) hef engan metnað fyrir hlaupum þá er það ekki alvöru markmið fyrir mér, sama þótt allir segi að þetta sé alveg geggjað markmið. Hérna skiptir svolitlu máli að skoða hvað skiptir hvern og einn máli, hvað það er sem við viljum fá út úr því að ná markmiðinu og hvort það færir okkur nær því sem við viljum fá út úr lífinu almennt. Hvað er alvöru markmið er því persónubundið fyrir hverjum og einum.

Raunhæft markmið er hvert það markmið sem er möguleiki að ná að teknu tilliti til raunveruleikans. Það væri t.d. ekki raunhæft fyrir einhvern sem er gjörsamlega laglaus að vinna söngkeppni en það gæti verið raunhæft fyrir sama einstakling að fara í söngnám eða að taka þátt í söngkeppni. Eins er ekki sérstaklega raunhæft að ætla sér að standa upp úr sófanum og hlaupa maraþon eftir mánuð með tilliti til líkamlegs álags, eða að ætla að stunda áhugamál í margar klukkustundir á sólarhring meðfram fullri vinnu og fjölskyldulífi með tilliti til fjölda tíma í sólarhringnum og annarra þarfa sem þarf að sinna. Þá þarf að setja niður fyrir sér hvernig er hægt að útfæra markmiðið þannig að það verði raunhæft og gerlegt. Stundum getur það falist í því að færa tímamörk eða minnka umfang verkefnisins eða breyta sjónarhorninu á það hvernig maður fær það sem maður vill út úr markmiðinu. Maraþon markmiðinu mætti t.d. breyta á þann hátt að ætla að taka þátt í maraþoni á næsta ári en ekki í næsta maraþoni. Hægt væri að setja markmið um ástundun áhugamáls frekar með vikuna sem tímaramma svo hægt væri að gefa öðrum hlutum athygli á ákveðnum dögum en eiga meiri tíma fyrir sig um helgar.

Tímasetning markmiða skiptir svo ekki síst máli þegar kemur að markmiðum svo maður gefi sér ákveðinn tíma til að ná markmiðinu en viti einnig hvenær maður ætlar sér að vera búinn með það. Ef markmiðið er að taka þátt í einhverjum viðburði þá er dagsetning viðburðarins lokatíminn og tíminn fram að viðburðinum tímaramminn. Ef við ætlum að klára markmið á þremur mánuðum þá er gott að taka það fram en einnig hvernig þessir þrír mánuðir afmarkast þ.e. Hvenær byrjar þriggja mánaða tímabilið og hvenær klárast það? Þannig er alltaf gott að skrifa hjá sér bæði upphafs- og lokadagsetningu markmiðsins. Svo er einnig hægt að setja sér markmið með ennþá minni tímaramma líkt og Að klára uppvaskið fyrir hádegi, að klára 500 orð í ritgerð á næstu tveimur klukkustundum. Þá er ekki síður mikilvægt að skrá niður hvenær maður byrjar og hvenær markmiðinu á að vera náð, þó það sé bara það sem maður skrifar niður á miða einhversstaðar eða í notes í símann sinn.
Hér á eftir skulum við fjalla aðeins um langtíma- og skammtímamarkmið og hvernig mismunandi tímalengd markmiða vinnur saman.

Langtímamarkmið og skammtímamarkmið

Það segir sig kannski sjálft en langtímamarkmið ná yfir langan tíma og eru því yfirleitt stærri í sniðum en skammtímamarkmið ná yfir styttri tíma og eru einfaldari og/eða fljótlegri í framkvæmd. Oft er miðað við að langtímamarkmið nái yfir meira en eitt ár. Gallinn við langtímamarkmið er að takmarkið er svo langt í burtu; það er erfitt að sjá fyrir sér að ná því eða erfitt að ná utan um vinnuna sem þarf að vinna til að ná markmiðinu. Það er því oft mjög sniðugt að búa til nokkur skammtímamarkmið sem heyra undir langtímamarkmiðið. Sem dæmi um þetta getum við haft það langtímamarkmið að kaupa okkur eigin húsnæði eftir 5 ár. Undir það markmið geta fallið skammtímamarkmið um að safna 500.000 kr., einni milljón o.s.frv. þangað til við erum komin með fyrir útborgun. Einnig getur verið gott skammtímamarkmið að kynna sér ferli og kostnað fasteignaviðskipta eða fasteignamarkaðinn t.d. að skrá sig á námskeið eða hlusta á podköst. Þessi markmið ættu ekki að taka langan tíma en styðja vel við langtímamarkmiðið að kaupa sér húsnæði. Svona er hægt að brjóta niður allskonar stór markmið s.s. ef maður stefnir á að klára nám, vinna sig upp í starfi, ná stórum heilsufarslegum markmiðum eða langtímamarkmiðum tengdum áhugamálum.

Þegar þú ert búin að setja niður markmið sem fylgir þínum gildum og er eitthvað sem þú virkilega vilt gera, markmið af þeirri tegund sem færir þig nær lokamarkmiði þínu, SMART markmið og markmið sem er ekki of fjarlægt í tíma til að þú gefist upp á miðri leið er tímabært að setja niður plan um hvernig þú ætlar þér að ná markmiðinu. Nánar um það í næstu bloggfærslu!

Previous
Previous

Að ná markmiðum sínum

Next
Next

Trúarjátning konu