Kostir þess að halda heilsudagbók
Það eru margir kosti við það að halda heilsudagbók, sama hvort þú ert við hestaheilsu, með langvinnan sjúkdóm eða að ná þér eftir skammvinn veikindi eða meiðsli. Heilsan skiptir okkur öll máli en við spáum oft ekki í henni fyrr en hún er allt í einu ekki sjálfsögð. Góður kennari sagði eitt sinn við mig að heilsa væri ekki bara að vera laus við sjúkdóma heldur að hafa nógu góða heilsu og hreysti til að gera það sem við viljum gera.
Meðal þeirra kosta sem geta falist í því að halda heilsudagbók eru:
Sjálfsmeðvitund og tenging við eigið innsæi: Með því að skrifa niður hvernig þér líður og hver staðan er á heilsunni þinni er á hverjum degi verðurðu sjálfkrafa meðvitaðri um þína eigin líðan og heilsu. Bara það eitt að setja sig í þær aðstæður að hugsa um og meta heilsuna á hverjum degi eykur meðvitundina um hana. Eftir því sem þú verður meðvitaðri þá eykst einnig tengingin við innsæið þitt sem er þér í blóð borið. Þú ferð að tengja betur milli þess hvernig þér líður og meðvitundarinnar um heilsuna sem gerir það að verkum að það verður auðveldara að treysta innsæinu um hvað það er sem þú þarfnast, hvort sem það er fyrir líkamlega eða andlega heilsu.
Mun auðveldara að fylgjast með heilsu og líðan í kjölfar breytinga: Við upplifum öll breytingar af einhverju tagi hvort sem það eru almennar breytingar s.s. á atvinnu, búsetu og aldri eða breytingar sérstaklega mikilvægar heilsunni s.s. slys, veikindi, breytingar á lyfjum eða að hefja einhverskonar meðferð. Með því að halda heilsudagbók er mun auðveldara að fylgjast með áhrifum þessara breytinga á heilsu okkar. Það er t.d. mun auðveldara að athuga hvort þú finnur fyrir aukinni þreytu eftir breytingar á lyfjum ef þú hefur verið að skrá það niður áður en eða þegar lyfjunum var breytt.
Markvissari samtal við heilbrigðisstarfsfólk: Það er oft þannig að við vitum ekkert hvaða upplýsingar eru mikilvægar þegar við setjumst á móti lækni eða öðru heilbrigðisstarfsfólki og berum heilsufarsvandamál á borð. Með því að halda heilsudagbók og jafnvel hafa hana með inn á heilbrigðisstofnun, þá getum við breytt Ég held það í Ég veit að… eða Mér finnst þetta hafa verið svona í Þetta hefur verið svona. Mér finnst ég knúin til að taka það fram að það gæti verið munur á milli kynja hér. Rannsóknir hafa sýnt að það er síður hlustað á konur í heilbrigðiskerfinu og þær fá síður/seinna rétta greiningu á vandamálum sínum (Heilsufar og heilbrigðisþjónusta, 2021). Góð heilsudagbók getur hjálpað til við að koma nákvæmum og réttum upplýsingum á framfæri. Þetta vandamál er samt fyrst og fremst heilbrigðiskerfisins og ætti ekki að vera á hendi kvenna að þurfa að leggja fram betri gögn til staðfestingar á frásögn sinni umfram karla.
Yfirsýn yfir sögu og mynstur: Lítið mál er að fletta upp í heilsudagbók og skoða aftur í tímann eða bera saman mismunandi tímabil og greina mynstur. Sefurðu t.d. verr eða sýnir einkenni þegar er sérstaklega mikið álag í vinnunni eða einkalífinu? Færðu oftar höfuðverk á ákveðnum stað tíðarrhingsins? Hefur tíðni mígrenishöfuðverkja aukist eða minnkað með aldrinum? Þessum spurningum er mun auðveldara að svara ef maður hefur haldið heilsudagbók í gegnum tíðina og getur flett því upp hvernig staðan hefur verið.
Auðveldara að fagna jákvæðum breytingum og bregðast við neikvæðum: Með auknum og aðgengilegum upplýsingum og sjálfsmeðvitund er mun auðveldara að koma auga á jafnt jálvæðar og neikvæðar breytingar á heilsu og bregðast rétt við; Fagna þeim jákvæðu og halda áfram að vinna í þá átt eða leita aðstoðar eða meðferðar við neikvæðum breytingum.
Þetta eru helstu og augljósustu kostir þess að halda heilsudagbók en þetta er alls ekki tæmandi listi. Þá eru kostirnir og gróðinn af heilsudagbók misjafn milli fólks og getur einnig verið misjafn eftir því á hvaða aldri þú ert, kyni og heilsufari almennt og í framtíðinni.
Form heilsudagbókar getur verið eins misjafnt og við erum mörg. Ef þú ert að velta fyrir þér að byrja að skrá í heilsudagbók blasir sennilega fyrst við að ákveða hvort hún á að vera í rafrænu formi eða á blaði. Rafrænar heilsubækur er hægt að útbúa hvort sem er í einföldu skjali s.s. notes eða styðjast við eitthvert af fjölmörgum heilsu-öppum sem í boði eru. Ef það hentar þér hins vegar betur að skrifa á blað eða í bók þá er hægt að hafa heilsudagbókina í einfaldri stílabók, velja einhverja af tilbúnum heilsudagbókum (ég mæli að sjálfsögðu með Heilsan mín - Dagbók, en ég er kannski ekki hlutlaus), eða útbúa sína eigin. Hvaða form sem verður fyrir valinu þá er mikilvægt að hafa í huga að skrá reglulega og markvisst í heilsudagbókina, vera heiðarleg/t/ur í skráningunni (það græðir enginn og allra síst þú á því að fegra sannleikann), gera samantekt eða hafa bókina meðferðis í læknisheimsóknir, til meðferðaraðila eða inn á heilbrigðisstofnanir og fylgjast með mynstrum.
Heimildir og frekari upplýsingar:
Heilsufar og heilbrigðisþjónusta - Kynja og jafnréttissjónarmið (2021)